top of page
  • Writer's pictureÞórarinn Hjálmarsson

Af hverju?

Updated: Mar 13

Þegar ég var yngri fannst mér alltaf jafn fyndið þegar Rassálfarnir mættu til leiks í kvikmyndinni um hana Ronju Ræningjadóttur. Litlir álfar sem spurðu í sífellu sömu spurningarinnar, af hverju? Nú veltir þú kannski fyrir þér hvernig rassálfar og markaðsfræði tengjast? Ekki er það beint í gegnum sagnaheim Astrid Lindgren heldur í reynd í gegnum þessa spurningu.



Líkt og ég hef svo oft hamrað á þá eru þessi fögru fræði okkar gagnadrifin. Öll ákvarðantaka skal byggja á gögnum en ekki „gut feeling“. Faglegt markaðsstarf byggir af rökunum af því að, ekki af því bara.


Mörg okkar, mögulega flest, reiðum okkur á utanaðkomandi ráðgjöf með einhverja hætti í okkar daglega starfi. Hvort sem það snýr að framsetningu auglýsingaefnis, birtingaráðgjöf eða hreinlega heildrænni markaðsráðgjöf. Í þeim tilfellum er það hlutverk okkar sem kaupenda þjónustunnar að spyrja réttu spurninganna með það að leiðarljósi að hámarka það fjármagn sem við erum að setja í verkefnið/ráðgjöfina. Þar kemur Astrid Lindgren tengingin.


Við könnumst öll við að sitja fundi með mótaðilum þar sem dembt er á okkur allskonar upplýsingum og jafnvel lagðar línur fyrir það sem koma skal. Þá er mjög mikilvægt að spyrja réttu spurninganna. Eða kannski frekar réttu spurningarinnar.


Af hverju?


Þessi stutta og einfalda spurninga mun skera úr um það hvort það sem lagt er fyrir framan ykkur sé byggt á af því að rökum en ekki af því bara rökum. Að þetta sé byggt á greiningum en ekki byggt að stórum hluta á einhverjum greinum eða pistlum um stefnur og strauma komandi árs. Spámennsku hreinlega.


Það að spyrja af hverju og vilja fá rökin fyrir ákvörðunum auðveldar okkur að komast að kjarnanum. Komast að því hvað býr að baki þessum tillögum og gerir okkur betur í stakk búin til að leggja mat á það hvort um sé að ræða rökrétta hluti eða ekki.


Það er oft fyndið hvað ein stutt spurning getur bæði veitt okkur miklar upplýsingar og stutt jafn vel við ákvarðantöku eins og þessi. Því segi ég að á komandi ári verði helsta trendið að við sem markaðsfólk verðum meiri rassálfar og spyrjum einfaldra en krítískra spurninga. Ekki gleyma að þessi spurning er ekki hugsuð til að pirra einhvern, heldur er þetta fyrir okkur til að geta heyrt rökin fyrir því sem verið er að kynna og með því tekið upplýstari ákvarðanir. Því á endanum er markmið okkar að stunda faglegt markaðsstarf sem byggt er á gagnadrifnum ákvarðantökum en ekki bara einhverju trendi eða „gut feeling“ hjá einhverjum.




Í leit minni að myndefni með þessari færslu þá rakst ég á hreint prýðilega færslu frá honum Sigurjóni Ólafssyni þar sem hann segir frá erindi á hádegisfyrirlestri Ský frá árinu 2016. Mæli með lestri á henni.

70 views0 comments

Comments


Business Meeting

Markaðsleg einkaþjálfun

Hvað er það eiginlega og hvernig getur það gagnast mér?

bottom of page