OK. Enn einn pistillinn um það hvað COVID-19 er að hafa mikil áhrif á markaðsmál. Ekki mest spennandi efnið en gefið mér smá séns.
Óneitanlega eru þetta undarlegir tímar og líkt og í flest öðrum starfsgreinum þarf markaðsfólk að bregðast við og aðlagast þessu öllu saman. Skulum samt ekki gleyma að markaðsfræði í kjarnann snýst um breytingar, að geta greint þær og brugðist við...jafnvel að breyta hegðun ef svo ber undir.
Mikið er rætt núna um einmitt þessi áhrif á markaðsmál skipulagsheilda og allskonar vangaveltur og punktar sem koma þar fram. Stórar áskoranir sem á að leysa með nýjum vef, nýrri nálgun í samskiptum eða einhverri sambærilegri skammtímalausn.
Ef við tökum ferðaþjónustuna alfarið úr fyrir sviga og horfum á landslag skipulagsheilda sem eftir situr þá má einmitt velta fyrir sér hverjir munu lifa þetta allt saman af og það leiðir okkur yfir í fræðilega hluta pistilsins.
Árið 1990 birtist grein eftir Kohli og Jaworski (nú ranghvolfa fyrrum nemendur mínir augunum) þar sem þeir fjalla um hugtakið „markaðshneigð“. Á svipuðum tíma koma einnig fram aðrir höfundar sem taka á þessu hugtaki með öðruvísi breyttu sniði en kjarninn er kannski aðlögunarhæfni eða næmni skipulagsheilda fyrir umhverfinu og hæfileiki þeirra til að miðla. Þessi hringrás þar sem skipulagsheildin safnar saman upplýsingum, dreifir þeim á rétta staði og bregst við þeim með tilheyrandi hætti. Að sama skapi hafa Narver og Slater talað um þetta sem menningu innan skipulagsheilda, eitthvað sem er samofið inn í skipulagsheildina.
Sama hvort þú horfir á þetta sem ferla líkt og Kohli og Jaworski eða sem menningu eins og Narver og Slater þá er í grunninn áherslan á að skipulagsheildin hafi aðlögunarhæfni. Það er einmitt þessi aðlögunarhæfni sem reynir á um þessar mundir.
Jú það er klárlega hægt að bregðast við COVID-19 og áhrifum þess á reksturinn með því að stofna TIK-TOK reikning eða fjárfesta í nýjum vef en mögulega þarf að horfa til allra p-ana í verkfærakistunni.
Þessi faraldur er að hafa stórvægileg áhrif á líf okkar allra en þó í mismiklu mæli kannski. Atvinnuleysi eykst, takmarkanir á fjölda þeirra sem máttu vera inn í verslun hér áður fyrr o.s.frv. Þessir utanaðkomandi faktorar hafa áhrif á t.d. verðlagningu eða umgjörð innan fyrirtækja. Hvernig er tekið á móti viðskiptavinum núna er talsvert breytt frá því fyrir ári síðan o.s.frv. Málið er að þetta er ekki leyst með einu p-i heldur þarf að nýta þau öll.
Mögulega er það einmitt markaðshneigð skipulagsheildanna sem getur skilið á milli feigs og ófeigs þessa dagana, hæfni þeirra til að lesa og greina umhverfi sitt. Skilja og þekkja viðskiptavininn. Geta unnið úr þessum upplýsingum, komið þeim á rétta staði innan skipulagsheildanna og framkvæmt í takt við þessar breytingar. Sama hvaða verkfæri verður fyrir áhrifum. Bara þessi hæfni að geta brugðist við.
Þannig að kannski er þetta einmitt hin fullkomna empiríska tilraun.
Kannski munu þau markaðshneigðustu lifa af
Comments